20.2.2007 | 14:12
,,Hviðótt" veður.
Nú heyrir maður talað um ,,hviðóttan" storm í nánast hverjum einasta veðurfréttatíma. Hérna sunnan jökla þekki ég engan sem kannast við þetta orð. Er þetta uppfinning ungra veðurfræðinga á Veðurstofu Íslands, eða er þetta þekkt orðfæri í öðrum landsfjórðungum. Gaman væri að fá comment á þetta frá einhverjum íslenskufræðingum.
19.2.2007 | 08:45
Að lemja hausnum við steininn.
Var að horfa á Silfur Egils í gærkvöldi og varð einusinni enn vitni að því hvernig menn geta blygðunarlaust haldið fram algjörum öfugmælum. Þar á ég við málflutning Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um umhverfis og skattamál. Þar átti svo sannarlega við gamla ortækið að einhver sé að ,,lemja hausnum við steininn" Skyldi maðurinn trúa því sem hann var að segja? Ég held að svona ofsatrú virki ekki vel á kjósendur.
14.2.2007 | 23:05
Ásýnd Íslands.
Ef heldur fram sem horfir, verður það heldur nöturleg sýn sem blasir við erlendum ferðamönnum, sem í framtíðinni koma til þess að sjá og njóta hinnar ósnortnu íslensku náttúru. Strax í aðfluginu að Keflavíkurvelli munu blasa við raflínuflækjur þvers og langs um hinn eldbrunna Reykjanesskaga, ásamt væntanlegu álveri í Helguvík. Leiðin til Reykjavíkur vörðuð af sömu línum og nánast keyrt í gegn um hið risavaxna og nýstækkaða álver Alcan í Hafnarfirði. Ekki tekur betra við þegar haldið er austur yfir Hellisheiði. Gufurör, og risabyggingar hafa lagt undir sig Svínahraunið og meira og minna allt sem séð verður frá þjóðvegi eitt þar til halla fer undan á austurhluta Heiðarinnar. Við Þjórsá getur svo að líta röð af virkjunum nánast frá sjó og inn í Þjórsárdal. Það er semsagt ekki fyrr en austur í Rangárvallasýslu, sem túristinn fer að sjá eitthvað af því sem hann vænti að væri eitthvað einkennandi fyrir Ísland. Litlu betra er þó vesturleiðin sé valin. Þá er Borgarnes í rauninni fyrsti staðurinn sem er laus við þessa óværu sem að framan er lýst. Já, þetta er líklega svæðið sem einn fornfrægur pistlahöfundur kallaði ,,hina sælu suðurbyggð"
9.2.2007 | 15:36
Blessuð hagræðingin
Er ég einn um það að finnast alltaf verra og verra að skipta við þessu stóru og nýríku fyrirtæki sem alltaf eru að berja sér á brjóst fyrir aukinn hagnað og hagræðingu. Tökum t.d. símaþjónustu þessara fyrirtækja. Hringt er inn og þá kemur símsvari sem þylur upp ótal möguleika um sjálvirkt val í allskonar deildir og ef ekkert er valið svarar þó einhver lifandi vera á skiptiborðinu eftir dúk og disk. Þá heldur maður að allur vandi sé leystur en það er nú eitthvað annað. Í risafyrirtækjunum veit þessi mannvera yfirleitt ekki hvað heyrir undir hvern, hvað þá að þekkja nöfn vinnufélaga sinna. Svo er reynt að gefa eitthvað í blindni og á einhvern sem hugsanlega veit eitthvað um málið. Venjulega veit sú persóna ekkert meira og prófar að gefa á næsta mann --- en þá slitnar. Þú þarft að byrja upp á nýtt. Það er sennilega einn liður í ,,hagræðingunni" að láta hundruð manna og kvenna, sitja út um allan bæ og bíða í símanum.
7.2.2007 | 09:27
Útrýming loðnunnar.
31.1.2007 | 17:56
Blessaður bankagróðinn.
Mikið skelfing hljóta skuldarar þessa lands að vera ánægðir eftir að hafa hlustað á afkomutölur bankanna. Það ósköp notalegt að vita að þar eru ennþá til miklir peningar til þess að lána. Það ætti ekki að vera nein vandræði að fá yfirdráttarheimildina hækkaða. Þá getur forsætisráðherra ekki leynt gleði sinni yfir öllum skatttekjunum sem munu skila sér í ríkissjóð í fyllingu tímans. Þar sem hann er sérstakur áhugamaður um skattpíningu láglaunafólks er ánægjan auðvitað tvöföld vegna þess að það er auðvitað verst stadda fólkið sem skuldar mest og sendir ríkissjóði enn meira af aurunum sínum í gegnum bankana. Já það er margt sniðugt á Íslandi.
31.1.2007 | 10:37
Boltinn.
Það er ljótt að segja en þegar líða tekur á stórmót hvort sem er í handbolta eða fótbolta, þar sem íslenskt lið tekur þátt fara að læðast að manni hugsanir um það hvort ekki hafi verið best að íslenska liðið hefði bara átt að detta sem fyrst úr keppni. Ekki það að fylgi ekki okkar mönnum en þegar allir fréttatímar og umræðuþættir hafa verið yfirfullir af fréttum og endalausum vangaveltum um leiki og leikmenn fer maður að verða dálítið þreyttur. Fyrr má nú rota en dauðrota.
28.1.2007 | 22:26