Hádegisviðtalið á Stöð2

Fróðlegt að horfa á viðtalið við Smára Geirsson í dag.  Hann er að vonum sæll og glaður með þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í kringum stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan. Hrósaði Alcoa mönnum mikið fyrir einstaka ljúfmennsku og þægilegheit.  Ekki er ég nú samt sannfærður um að  þeir séu farnir að sýna sitt rétta andlit.  Það gæti aftur á móti birst þegar þeir verða búnir að koma sér vel fyrir á Reyðarfirði og jafnvel líka á Húsavík. Amerísk stórfyrirtæki hafa nú  orð á sér fyrir að hafa allt annað en manngæskuna að leiðarljósi.  Smári sendi Vestfirðingum samúðarkveðjur í þeirra baráttu fyrir tilverunni.  Þó að hann nefndi það að sjálfsögðu ekki, veit þessi skynsami maður að vanda Vestfirðinga má kannski að verulegum hluta rekja til stórframkvæmdanna fyrir austan.  Þensluáhrifin frá þeim, ásamt fádæma lélegri efnahagsstjórn hafa þurrkað út ótrúlega mörg störf á landsbyggðinni. Án efa margfalt fleiri en þau sem vinnast í stóriðjufyrirtækjunum.  Þenslunni fylgir alltof sterk króna, glæpavextir og launaskrið, sérstaklega í öllum þjónustugreinum, sem alltaf virðast geta velt því út í sína verðlagningu, sem framleiðslufyrirtækin geta ekki.  Þar koma m.a. fram þær gífurlegu hækkanir á flutningskostnaði sem landsbyggðarfyrirtæki  verða að búa við.  Ef þessi atriði sem hér hafa verið talin væru ekki staðreynd, gæti verið að Marel teldi ekki ástæðu til að flytja sig frá Ísafirði. Sjómennirnir þar fengju meira fyrir fiskinn sinn, með minni tilkostnaði við veiðar og vinnslu og ferðaþjónustan ætti miklu betri sóknarfæri.  Smári lýsti þeirri skoðun sinni að ekki ætti að hugsa um frekari stóriðjuframkvæmdir  á suðvesturhorninu. Þar er ég honum hjartanlega sammála og raunar furðulegt að nokkur óvitlaus maður skuli mæla með því við núverandi aðstæður.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Þórir !

Alveg sérstaklega góður, og vel uppsettur pistill, hjá þér. Smári Geirsson er vel meinandi og hrekklaus, í hvívetna. Hætt við, að öll kurl séu ekki komin til grafar, hvað iðnvæðinguna, og þennan mikla hraða í þjóðfélaginu áhrærir. Vonum hið bezta, samt;; og þá ekki hvað sízt, til handa Vestfirðingum, tími kominn til, að þeirra landshluti njóti sannmælis.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 17:47

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Takk fyrir þitt góða innlegg, Óskar Helgi.

Þórir Kjartansson, 24.3.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband