6.4.2017 | 15:36
Þessi fávísi landsbyggðarlýður
Mikið megum við dreifbýlisdúddarnir vera þakklátir fyrir alla sérfræðingana fyrir sunnan sem vinna í því af mikilli ósérhlífni að hafa vit fyrir okkur í flestu sem við tökum okkur fyrir hendur. Það er opinbert leyndarmál að allir sem eitthvað hafa milli eyrnanna fara í langskólanám og geta eftir það ekki búið innan um ómenntað og illa siðað fólk sem flest er að finna á landsbyggðinni. Og vegna þess arna veitir alls ekki af því að passa okkur, því eðlilega gerir illa menntað fólk allskonar vitleysur og því ekkert vit að láta það leika lausum hala með stórhættu á því að það kunni hvergi fótum sínum forráð og það sem verra er, eyðileggi náttúruna með vanhugsuðum framkvæmdum, því malbiksbúarnir vilja þó koma stöku sinnum til að virða hana fyrir sér. Eðlilega er dreifbýlingnum ómögulegt að fylgjast með eða skilja jafn flókna hluti eins og gróðurfar, fuglalíf eða annað náttúrufar, jafnvel þó hann hafi búið innan um þetta í áratugi. Þurfi fréttamenn eða aðrir að fjalla um einhver mál úti á landi er ekki vit í öðru en að kalla til sérfræðing að sunnan. Forðast skal af fremsta megni að láta heimamenn rugla umræðuna. Fyrir stuttu var lagt mat á það hvar helst myndi vanta klósett með hringveginum. Til verksins var að sjálfsögðu ráðin verkfræðistofa á höfuðborgarsvæðinu, enda gera dreifbýlisbúar engan greinarmun á því hvort eða hvar kýr, kindur eða túristar þurfa að gera þarfir sínar. Hvað skýrslan kostaði hefur ekki fengist uppgefið. Nú hefur kvisast að Vegagerðin sé að byrja athugun á því hvar helst þurfi að bæta við útskotum og plönum með þjóðveginum, til að myndaglaðir túristar geti stoppað án þess að setja sig og aðra vegfarendur í hættu. Eðli málsins samkvæmt er búið að ráða verkfræðistofu til þess. Starfsmönnum Vegagerðarinnar allt í kringum landið er að sjálfsögðu ofviða að skilja eða koma með tillögur um svona flókið verkefni. Enda fæstir verkfræðimenntaðir. Eeeen skipulagsmálin eru þó enn heima í héraði, kann einhver að segja! Fólki til hugarhægðar er þó rétt að benda á að Skipulagsstofnun og ráðherra passa uppá að í þeim málum séu ekki framin einhver stórslys. Það er mikið gleðiefni fyrir okkur landsbyggðarfólk að finna alla þá umhyggju sem okkur er sýnd af stjórnvöldum og stofnanafólki á suðvestur horninu. Lýsir sér vel í því að peningar eru ekki vandamál þegar að því kemur að semja skýrslur sem miða að því að létta okkur lífið og hafa vit fyrir okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vel mælt. Góð færsla.
Íslenzk stjórnvöld eru sérfræðingar í því að henda tugum milljóna i einhverja vitleysu eftir að hafa ráðfært sig við fólk (sennilega vini og skyldmenni), sem veit ekki einu sinni hvernig landsbyggðin lítur út.
- Pétur D., verkfræðingur úr Reykjavík.
Pétur D. (IP-tala skráð) 6.4.2017 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.