23.11.2007 | 17:50
Bull og kjaftæði
Það er auðvitað bara bull að rautt kjöt sé eitthvað óhollara en annað sem við setjum ofan í okkur. Fyrir nokkrum áratugum var hangikjöt, saltkjöt, bjúgu, svið, súrmatur og saltfiskur í bland á borðum landsmann upp til sveita allan ársins hring. Miklu færri dóu þá úr krabbameini en í dag. En öll aukaefnin og plastumbúðirnar sem eru notuð í dag eru örugglega bráðdrepandi eitur. Það held ég að gáfumannasamfélagið ætti að skoða og rannsaka.
Bannfæra allt rautt kjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ekki rétt hjá þér. Ef skoðuð er kúrfan fyrir nýgengi magakrabbameins á 20. öldinni, þá er hún skarpt lækkandi alla öldina. Meginástæða er talin breyttar neysluvenjur, þ.e. að það sem þú setjir í magann hafi breyst og þar með nýgengið. Það hefur ekki verið rannsakað en við vitum að í reyktum mat og söltuðum er mikið af nitursamböndum sem eru krabbameinsvaldandi, en neysla á þessum vörum hefur einmitt dregist jafnt og þétt saman og er miklu, miklu minni nú en við upphaf 20. aldar. Það er mjög freistandi að tengja þetta þrennt saman...
Tryggvi Baldursson (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 18:25
Það er nú lítið að marka það Tryggvi að taka bara eina tegund krabbameina inn í þessa umræðu.
Þórir Kjartansson, 23.11.2007 kl. 22:32
Ég er svosem ekkert að halda því fram að sótreykt hangikjöt sé einhver sérstök hollusta fyrir magann. Í því eru sjálfsagt mörg eiturefni. Það sem mér finnst ekki trúlegt er að rautt kjöt sé eitthvað hættulegra en annar matur úr dýraríkinu. Held að þar hafi meðferðin miklu meira að segja. Kemur t.d. ekki á óvart að niðursneitt álegg sé afleitt, þar sem plastumbúðirnar eru næstum jafn þykkar og það sem í þeim er. Síðan er þetta lofttæmt sem veldur því að maturinn sýgur í sig eiturefnin úr plastinu. Þar að auki er þetta svo stútfullt af allskonar aukaefnum.
Þórir Kjartansson, 23.11.2007 kl. 23:42
Það er rétt hjá þér að það er ekki nóg að taka eina tegund krabbameins fyrir, en ég nefndi þetta dæmi í ljósi þeirra fæðutegunda sem þú nefnir því þú fullyrðir að minna hafi verið um krabbamein áður og má skilja þig sem svo, að fyrrnefndar fæðutegundir hafi haft eitthvað með það að gera. Ég er bæði ósammála því að minna hafi verið um krabbamein áður og ég tel þvert á móti að það séu meiri líkur en minni á, að þessar fæðutegundir séu fremur krabbameinsvaldandi frekar en verndandi. Það þýðir náttúrulega ekki að það eigi að hætta alfarið að borða þær!
Þessi umræða er mjög flókin, en nokkrar rannsóknir virðast sýna að mikilli neyslu rauðs kjöts fylgi aukin hætta á a.m.k. ristilkrabbameini. Fyrir þessu geta legið ýmsar ástæður, svo sem að þeir sem borði mikið kjöt séu ólíklegri en aðrir til að neyta grænmetis og ávaxta. Ég hef ekki lesið þessa rannsókn, en fréttin bendir til þess að þeir telji kjötið sjálfstæðan áhættuþátt og það kemur ekkert sérstaklega á óvart miðað við þekkinguna í dag. Það þýðir þó ekki kjötbann, heldur eru sömu ráðleggingar gildar eftir sem áður: auka neyslu á fiski, grænmeti og ávöxtum, gæta fjölbreytni í mataræði o.s.frv.
Tryggvi Baldursson (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 11:53
Í gamla daga var um þrjár aðferðir að ræða til að auka geymsluþol matvæla. Súrsa, salta og reykja. Ef þessar aðferðir væru eins hættulegar, eins og látið er í veðri vaka í dag hefði ég og þúsundir annarra, sem ólumst upp út í sveit um miðja síðustu öld alls ekki átt að ná tíu ára aldri, hvað þá meira. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt um, hvað þá þekkt, smábörn og kornungt fólk sem dó úr krabbameini. Þetta er þó algengt í dag. Fróðlegt væri að hafa samanburð á fjölda krabbameinstilfella á milli þeirra sem bjuggu í sveit á þessum árum og hinsvegar þeirra sem ólust upp í sjávarplássum. Þar var nýr fiskur stór hluti af fæðu manna. Eins og ég minntist á í upphafi varð fólk að nota þessar þrjár geymsluaðferðir og átti ekki annarra kost völ. Það er þessvegna meira en lítið undarlegt ef nú er hægt að rekja stóraukna tíðni krabbameina til fæðu okkar þegar litið er til allra þeirra sprenglærðu matvælafræðinga, sem um þessi mál fjalla og eru í vinnu hjá þeim fyrirtækjum, sem útbúa þann mat, sem daglega er á borðum okkar landsmanna.
Þórir Kjartansson, 24.11.2007 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.