Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Í ,,gærnótt" ?

Já, þetta er oft erfitt fyrir lögreglumenn í litlum þorpum, þar sem allir þekkjast að fara hinn gullna meðalveg í afskiptum sínum af náunganum. Það hefur margsannast að þeir sem ganga fram af ýtrustu smámunasemi á svona stöðum, verður varla vært þar til lengdar.  En annað mál sem mér finnst ekki síður furðulegt. Í þessari frétt er orðið ,,gærnótt"  notað og það í sjálfum Mogganum.  Einnig er orðið mjög algengt að heyra fréttamenn tala um  ,,þarsíðustu" viku o.s.frv. Ég held að það ætti að huga aðeins betur að íslenskunni hjá  þjóðinni og þá ekki síst fjölmiðlafólki
mbl.is Skemmdir unnar á bifreið lögreglumanns á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið um álver.

Það voru athyglisverðar viðvaranir sem Davíð Oddson seðlabankastjóri sendi út í samfélagið í gær og sanna það að stækkun álversins í Straumsvík er rétt meira en mál Hafnfirðinga einna.  Það er vonandi að allir hugsandi menn sem hafa tækifæri til að kjósa um þetta hafni því og leggi þar með lóð sitt á þá vogarskál að draga úr  þeirri þenslu og eyðslustefnu sem hefur ríkt hér alltof lengi. 

Glæsileg mynd

Frábært Jónas.  Til hamingju með þetta.
mbl.is Skýjahöll yfir Vík í Mýrdal valin mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hádegisviðtalið á Stöð2

Fróðlegt að horfa á viðtalið við Smára Geirsson í dag.  Hann er að vonum sæll og glaður með þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í kringum stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan. Hrósaði Alcoa mönnum mikið fyrir einstaka ljúfmennsku og þægilegheit.  Ekki er ég nú samt sannfærður um að  þeir séu farnir að sýna sitt rétta andlit.  Það gæti aftur á móti birst þegar þeir verða búnir að koma sér vel fyrir á Reyðarfirði og jafnvel líka á Húsavík. Amerísk stórfyrirtæki hafa nú  orð á sér fyrir að hafa allt annað en manngæskuna að leiðarljósi.  Smári sendi Vestfirðingum samúðarkveðjur í þeirra baráttu fyrir tilverunni.  Þó að hann nefndi það að sjálfsögðu ekki, veit þessi skynsami maður að vanda Vestfirðinga má kannski að verulegum hluta rekja til stórframkvæmdanna fyrir austan.  Þensluáhrifin frá þeim, ásamt fádæma lélegri efnahagsstjórn hafa þurrkað út ótrúlega mörg störf á landsbyggðinni. Án efa margfalt fleiri en þau sem vinnast í stóriðjufyrirtækjunum.  Þenslunni fylgir alltof sterk króna, glæpavextir og launaskrið, sérstaklega í öllum þjónustugreinum, sem alltaf virðast geta velt því út í sína verðlagningu, sem framleiðslufyrirtækin geta ekki.  Þar koma m.a. fram þær gífurlegu hækkanir á flutningskostnaði sem landsbyggðarfyrirtæki  verða að búa við.  Ef þessi atriði sem hér hafa verið talin væru ekki staðreynd, gæti verið að Marel teldi ekki ástæðu til að flytja sig frá Ísafirði. Sjómennirnir þar fengju meira fyrir fiskinn sinn, með minni tilkostnaði við veiðar og vinnslu og ferðaþjónustan ætti miklu betri sóknarfæri.  Smári lýsti þeirri skoðun sinni að ekki ætti að hugsa um frekari stóriðjuframkvæmdir  á suðvesturhorninu. Þar er ég honum hjartanlega sammála og raunar furðulegt að nokkur óvitlaus maður skuli mæla með því við núverandi aðstæður.  

Til að hressa upp á minnið hjá sjálfstæðismönnum

 

Já er varaformaðurinn hissa á því að hafa ekki meira fylgi á landsbyggðinni. Hér er smá upptalning á því sem hefur komið mjög illa við landsbyggðina á stjórnartíma Framsóknar og Íhalds.

Þjóðlendumál: Fólk kýs varla flokk sem leggur sig allan fram um að stela af því þinglýstum eignarlöndum.

Kvótakerfið, eins og það er framkvæmt. Hefur gert hundruð fjölskyldna á landsbyggðinni eignalausar.

Skattaokrið á lægstu laun. Kemur verst við landsbyggðarfólk, þar sem laun eru víðast hvar lægri en á suðvesturhorninu.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja. Hefur eingöngu leitt af sér færri störf úti á landi, stórhækkaðar gjaldskrár og verri þjónustu. Það virðast allir vita nema Sjálfstæðismenn að einkavædd einokun er versta rekstrarform sem hægt er að hugsa sér.

Svívirðilegar álögur á alla flutninga sem hafa leitt af sér margföldun á öllum flutningskostnaði. Bitnar að langmestu leyti aðeins á landsbyggðarfólki.

Stóriðjustefnan og algjört skeytingarleysi í umhverfismálum, nema núna þegar kosningar eru á næsta leiti.

Gæti haldið áfram en þetta eru verstu dæmin.


mbl.is Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indversk vinnuvernd

Það var hrollvekjandi að horfa á sjónvarpsþáttinn í gærkvöldi, þar sem sýnt var við hvernig aðstæður er unnið í indverskum vefnaðarverksmiðjum.  Þetta er í rauninni sambland af þrælabúðum og útrýmingarbúðum, þar sem fólk er drepið á örfáum árum með eiturefnanotkun.   Þessar vörur kaupum við íslendingar í lágvöruverðsverslunum hér.  Mikið verður svo gaman að lifa þegar blessaður íslenski neytandinn getur  farið að kaupa hræódýrar landbúnaðarvörur, sem eru framleiddar undir húsveggjunum á svona fyrirtækjum. Vonandi standa íslensku útrásarfyrirtækin, sem eru að hasla sér völl þarna, sig betur í þessum málum.

Auglýsinganauðganir

Hefur það komið fyrir ykkur að fá svo upp í kok af einhverri auglýsingu að þið hafið heitið því að skipta aldrei meir við viðkomandi fyrirtæki.  Ég átti einu sinni Volvobíla og var mikill aðdáandi þeirrar bílategundar. En eftir áralangar og síendurteknar nauðganir með þessu kolómögulega  ,,öruggurstaðurtilaðverá" slagorði, hef ég lofað mér því að stíga aldrei fæti inn fyrir dyr hjá þessu bílaumboði nema þeir finni eitthvað sem lætur betur í eyrum. Hafið þið líka tekið eftir því, að maður er í mesta sakleysi að horfa á sjónvarpsfréttirnar og auglýsingarnar taka víð að þá er styrkurinn á útsendingunni aukinn upp úr öllum skörðum að maður hendist upp úr Lazy Boy stólnum í örvæntingarfullri leit að fjarstýringunni til að lækka í þessum ófögnuði.   Ætli að svona auglýsingamennska virki ekki bara öfugt?

Gott innlegg í þjóðlendumál.

Bjarni Harðarson, annar maður á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi á mikinn heiður skilið fyrir að hafa tekið þjóðlendumálin upp með mjög afgerandi hætti á flokksþingi framsóknarmanna um helgina. Að hans frumkvæði var samþykkt tillaga um að taka strax til endurskoðunar alla aðferðafræði  á ofbeldi því  sem landeigendur hafa verið beittir til þessa.  Sigmar B. Hauksson, fulltrúi skotveiðimanna reyndi að koma í veg fyrir samþykkt hennar en hafði ekki erindi sem erfiði.  Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi fjölda atkvæða,  jafnt hvort fólk var úr dreifbýli eða þéttbýli.  Hinir stjórnmálaflokkarnir  og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn ættu að athuga sinn gang varðandi meðferð þessara mála. Það eru langtum fleiri en bara þessir fáu bændur sem að er sótt, sem sætta sig ekki við þessi vinnubrögð og þá  vanvirðingu á eignarrétti fólks sem þarna er sýnd í verki. 


Oft má satt kyrrt liggja.

Einu sinni enn hafa fréttamenn á íslenskum fjölmiðlum unnið óþurftarverk með umfjöllun sinni um  að þurfandi fólki hafi verið gefin matvæli, sem komin eru fram yfir síðasta söludag.  Allt er þetta gert í hinum nýja anda fréttamennskunnar að aldrei megi satt kyrrt liggja.  Þetta er því miður ekki fyrsta dæmið um að þetta öfugmæli er að skaða þá sem síst skyldi.   Svo þegar búið er að upplýsa ,,glæpinn" koma  allskonar siðgæðispostular og opinberir eftirlitsaðilar eins og hrafnar á hræ með umvandanir og jafnvel hótanir um lögsókn og viðurlög eins og alltaf er viðkvæðið á þeim bæjum.  Það væri ekki undarlegt þó að þetta fólk og fyrirtækin sem þarna hafa unnið lofsvert starf hætti því með öllu.

Saltkjöt og baunir

Mikið lifandis ósköp var skemmtilegt að heyra tilsvör gamla fólksins í Kastljósinu í gær þegar það var að borða saltkjötið og baunasúpuna. Fréttakonan spurði full vandlætingar hvort viðkomandi hefði ekki áhyggjur af því að borða svona óhollan mat en var bent á að þetta væri sko hollur matur, sem alltaf hefði verið borðaður á Íslandi og honum mætti það þakka sinn háa aldur og góða heilsu. Það er ótrúlegt að á hverjum einasta þorra og síðan á sprengirnum skulu fréttamenn og næringarfræðingar leggjast á eitt í því að rakka niður bráðhollan íslenskan mat. Í minni sveit, þar sem ég ólst upp um og uppúr síðust öld var borðaður saltaður, súr og reyktur matur á hverjum einasta degi. Það saltkjöt var vel saltað og með miklum saltpétri að auki. Eins var hangiketið, mikið saltað og kófreykt. Enda aldrei fryst, hékk bara í reykkofanum fram á sumar og skemmdist ekki.  Ef þetta væri eins óhollt og blessaðir manneldisfræðingarnir segja, hefði ég og þúsundir annarra, sem ólust upp á þessum tíma ekki getað náð tíu ára aldri, hvað þá meira. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband